Kynjamisrétti er alþjóðlegt fyrirbæri og sést vel í markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og fulla þátttöku kvenna í efnahagslegri þátttöku og ákvarðanatöku. Ísland er í fararbroddi jafnréttismála á mörgum sviðum en samkvæmt úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins, er þörf á aðgerðum til að loka kynjabilinu í efnahagslegri þátttöku kynja og jöfnum tækifærum til stjórnunarstarfa.
Meginrannsóknir setursins:
- Hvernig má loka kynjabilinu í efnahagslegri þátttöku og ákvarðanatöku: Viðhorf stjórnarfólks, stjórnenda, lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta og almennings til aðgerða og ábyrgðar við að jafna tækifæri kynjanna. Hvað geta stjórnir félaga og stjórnendur gert til að stuðla að auknu jafnrétti innan sinna fyrirtækja.
- Áhrif gervigreindar á vinnumarkað og ráðningaferli: Kannað er hvernig notkun gervigreindar í ráðningarferlum getur ýtt undir eða dregið úr kynjamisrétti. Sérstök áhersla er lögð á hlutverk ráðningaraðila, mannauðskerfa og matsaðferða í að viðhalda eða raska kynjahlutföllum í efstu stöðum atvinnulífsins.
- Fjárfestingar kvenna – áhrifaþættir, hvatar og hindranir: Rannsóknir miða að því að varpa ljósi á fjárfestingarhegðun kvenna á Íslandi og greina þær félagslegu, efnahagslegu og menningarlegu hindranir sem takmarka þátttöku þeirra á fjármálamörkuðum. Jafnframt er sjónum beint að hvötum og stuðningskerfum sem geta aukið fjárfestingavilja kvenna og þar með eflt efnahagslegt sjálfstæði þeirra og áhrif í atvinnulífi og samfélagi.
- Fjárfestingar með kynjagleraugum: Í rannsóknum á fjárfestingum með kynjagleraugum er skoðað hvort og hvernig stofnanafjárfestar, líkt og lífeyrissjóðir, nýta möguleika sína til áhrifa til að stuðla að auknu kynjajafnrétti meðal fyrirtækja í eignasöfnum sínum. Þá beinast rannsóknir m.a. að greiningu á mögulegum samfélagslegum, efnahagslegum og fjárhagslegum ávinningi af því að fjárfesta með kynjagleraugum.
- Áhrif jafnlaunavottunar: Jafnlaunavottun hefur verið afar umdeild víða um heim. Jafnlaunastaðallinn sem innleiddur var á Íslandi og jafnlaunavottunin sem á honum byggir eru einstök á heimsvísu. Rannsóknirnar beinast að áhrifum jafnlaunavottunarinnar á lýðfræðilegan launamun, bæði kynbundinn launamun og launamun eftir þjóðerni.
Alþjóðlegt samstarf og stefnumótun: Setrið er að hefja þróun á leiðarvísi fyrir jafnrétti kynja í efnahags- og atvinnulífi með hliðsjón af Public Leadership for Gender Equality (PL4GE) ramma Stanford háskóla, þar sem áhersla er lögð á að greina og draga úr félagslegum, sálrænum, kerfislægum og stofnanabundnum hindrunum sem hamla efnahagslegri þátttöku og ákvarðanatöku kvenna. Verkefnið byggir t.a.m á íslenskum gögnum og norrænum samanburði, og miðar að því að þróa módel fyrir jafnrétti í efnahagsmálum og ákvarðanatöku í samstarfi við Stanford og norræna aðila, m.a. í Danmörku, Noregi og Finnlandi. Markmiðið er að stuðla að kerfisbreytingum sem auka þátttöku kvenna í efnahags- og atvinnulífi og hægt verður að heimfæra yfir á önnur lönd.