Ný fræðigrein bendir á að góð áform um launajöfnuð geti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir jafnrétti innan fyrirtækja. Greinin Unintended Consequences of Closing Pay Gaps Across Multiple Groups, eftir David Anderson, Margréti V. Bjarnadóttir og David Gaddis Ross var birt 17. október 2025.
Höfundarnir skoða hvernig fyrirtæki leitast í auknum mæli við að loka launabili milli hópa, til dæmis milli karla og kvenna og milli meirihluta og minnihlutahópa, á sama tíma og þau vilja tryggja sanngjarna stöðu fólks í skipuriti fyrirtækisins. Með því að nota stærðfræðileg líkön og hermigreiningar sýna þau að þessar tvær áherslur geta rekist á.
Niðurstöðurnar benda til þess að þegar fyrirtæki leggja mikla áherslu á að „tölurnar stemmi“ í launajöfnuði geti skapast hvati til óæskilegrar lausnar, að fyrirtæki geta lágmarkað kostnað með því að hafa fáa einstaklinga úr jaðarsettum hópum í hálaunastörfum og greiða þeim vel, á meðan stærri hópar, til dæmis konur eða karlar úr minnihlutahópum í sambærilegum störfum eru áfram á lágum launum. Þannig getur myndast jafnrétti á yfirborðinu sem felur í sér raunverulegt misrétti.
Höfundarnir sýna jafnframt fram á að hægt er að forðast þessa þróun með því að líta á sanngjörn laun út frá eðli starfa og hæfni einstaklinga, fremur en að reyna að ná launajöfnuði með sem minnstum tilkostnaði. Slík nálgun er þó oft dýrari, sérstaklega þegar launamunur er mikill í vel launuðum störfum eða þegar margir ólíkir hópar eru teknir með í jöfnuna.
Í lok greinarinnar leggja höfundarnir til hagnýta lausn sem er sú að fyrirtæki og rannsakendur taki markvisst tillit til samtvinnaðra hópa, til dæmis kvenna úr minnihlutahópum þegar launabil eru mæld. Með því megi draga úr röngum hvötum, auka gagnsæi og stuðla að raunverulegri jafnréttisþróun, en ekki aðeins tölum sem líta vel út á blaði.