
Katrín Jakobsdóttir
Stjórnarformaður
Katrín Jakobsdóttir gegndi embætti forsætisráðherra Íslands frá nóvember 2017 til apríl 2024. Hún var mennta- og menningarmálaráðherra og jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda á árunum 2009–2013. Katrín var formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 2013 til 2024 og hafði áður verið varaformaður hreyfingarinnar frá 2003 til 2013. Hún sat á Alþingi fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður frá 2007 til 2024. Frá 2020 til 2024 gegndi hún einnig stöðu formanns Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders).
Katrín er nú sérlegur erindreki fyrir Hringborð Norðurslóða (Arctic Circle Assembly) og er formaður evrópskrar nefndar um loftslagsmál og heilsu á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu. Þá er hún formaður stjórnar Listahátíðar í Reykjavík og situr í háskólaráði Háskóla Íslands.
Sem forsætisráðherra beitti Katrín sér sérstaklega í jafnréttismálum, meðal annars með heildstæðri áætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, innleiðingu jafnlaunavottunar og framsæknum breytingum á fæðingarorlofskerfinu sem tryggja jafnari skiptingu milli foreldra. Undir hennar forystu setti Ísland sér það markmið að verða kolefnishlutlaust fyrir árið 2040. Þá beitti Katrín sér fyrir því að Ísland tæki þátt í alþjóðlegu samstarfi velsældarhagkerfa. Meðal annars voru innleiddir nýir mælikvarðar fyrir stefnumótun hins opinbera sem fela í sér efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega þætti og er ætlað að mæla betur velferð og líðan fólks.
Katrín Jakobsdóttir er gift Gunnari Sigvaldasyni og saman eiga þau þrjá syni. Hún er með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum og BA-próf í íslensku með frönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Áður en hún tók sæti á Alþingi starfaði hún við fjölmiðla, bókaútgáfu og kennslu. Hún hefur þýtt tvær bækur með Gunnari Sigvaldasyni og gaf út glæpasöguna Reykjavík í samstarfi við rithöfundinn Ragnar Jónasson.

Viðar Lúðvíksson
Meðstjórnandi
Viðar Lúðvíksson er hæstaréttarlögmaður hjá lögfræðistofunni Landslög og sérhæfir sig einkum í félagarétti, stjórnarháttum fyrirtækja, samningagerð og málflutningi. Hann er með LL.M.-gráðu í félagarétti og stjórnarháttum fyrirtækja (Corporate Governance and Practice) frá Stanford Law School í Kaliforníu (2007) og cand. jur. próf í lögfræði frá Háskóla Íslands (1997). Þá stundaði hann nám í vátryggingarétti og alþjóðlegum einkamálarétti við Árósaháskóla í Danmörku árið 1996. Viðar hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1998 og fyrir Hæstarétti árið 2004 og hefur flutt fjölmörg dómsmál fyrir öllum dómstigum.
Viðar hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan lögfræðistéttarinnar. Hann var stjórnarmaður í Lögmannafélagi Íslands á árunum 2019–2021 og áður varamaður 2017–2019. Þá sat hann í laganefnd félagsins (2010–2012) og í siðanefnd við endurskoðun á siðareglum félagsins (2016–2019).
Viðar er varaformaður í úrskurðarnefnd kosningamála, skipaður af dómsmálaráðherra. Viðar hefur verið formaður eftirlitsnefndar með starfsemi Íslandspósts samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2017. Hann hefur frá árinu 2011 gegnt stöðu varaformanns úrskurðarnefndar raforkumála á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Á árunum 2015–2024 sat hann í stjórn Sendafélagsins ehf., samrekstrarfélags Sýnar (Vodafone) og Nova um farsímainnviði þeirra, þar af sem stjórnarformaður um nokkurt skeið.
Viðar var einnig stjórnarmaður í Íslandsdeild Amnesty International á árunum 2000 til 2004.
Viðar hefur birt ýmsar fræðigreinar og kennt við lagadeildir þriggja háskóla á Íslandi. Hann sinnir reglulega kennslu við lagadeild Háskólans í Reykjavík og hefur frá árinu 2008 kennt á námskeiði til öflunar réttinda til að vera héraðsdómslögmaður.

Ásta Dís Óladóttir
Meðstjórnandi
Dr. Ásta Dís Óladóttir er prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður stjórnar Viðskiptafræðistofnunar sem sér um Executive MBA nám við skólann. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun og leiðtogastörfum innan háskólasamfélagsins og atvinnulífsins. Hún situr í fjölmörgum stjórnum í atvinnulífinu og er m.a. formaður Jafnvægisvogarráðs. Ásta Dís hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hið opinbera, setið í gerðardómum og í nefndum og ráðum. Auk þess hefur Ásta Dís átt sæti í ýmsum endurskoðunar- og starfskjaranefndum fyrir stærri félög.
Ásta Dís hefur kennt við alla helstu viðskiptaháskóla landsins og einnig við Copenhagen Business School í Danmörku í BS, MS og MBA námi. Rannsóknir hennar beinast einkum að jafnrétti, stjórnarháttum og leiðtogavali, og hún hefur birt fjölda ritrýndra greina og bókakafla. Þá hefur Ásta Dís ritað tvær bækur á sviði sjávarútvegs og eldis. Auk þess leiðir hún rannsóknarverkefni sem hafa hlotið styrki frá innlendum og erlendum sjóðum og fyrirtækjum. Árið 2023 hlaut hún viðurkenningu frá Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til rannsókna á sviði jafnréttismála.
Hún hefur einnig tekið virkan þátt í stefnumótandi umræðu um jafnrétti og stjórnarhætti á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, meðal annars með fjölda erinda á ráðstefnum og viðburðum þar sem ný þekking og stefnumótandi sýn eru kynnt fyrir fræðasamfélaginu, atvinnulífi og stjórnvöldum.