Headhunters and the persistence of gender imbalance in CEO recruitment er heiti nýrrar ráðstefnugreinar eftir Hrefnu Guðmundsdóttur, Þóru H. Christiansen og Ástu Dís Óladóttur. Hrefna og Þóra kynntu niðurstöðurnar á árlegri ráðstefnu European Academy of Management (EURAM) í Flórens dagana 22.–25. júní 2025.
Greinin byggir á eigindlegri rannsókn sem felur í sér viðtöl við átta íslenska ráðningarsérfræðinga (hausaveiðara) og skoðar hvernig aðferðir þeirra og starfsvenjur hafa áhrif á kynjahlutföll í forstjórastöðum á Íslandi. Í niðurstöðunum er fjallað um þá hæfni sem forstjórar þurfa að búa yfir, ávinning og áskoranir við að auglýsa stöður, hvernig leit að umsækjendum fer fram og samsetningu og kynning umsækjendalista til stjórna félaga.
Helstu niðurstöður benda til þess að hefðbundin vinnubrögð í ráðningarferlum geti ómeðvitað viðhaldið kynjahalla. Þó má einnig greina skýrar leiðir til að draga úr hlutdrægni, meðal annars með:
- Fjölbreyttara og hlutlausara orðalagi í atvinnuauglýsingum
- Endurskoðun á hæfniskröfum með fjölbreytni að leiðarljósi
- Markvissri kynjasamsetningu umsækjendalista
Rannsóknarteymið vonast til að niðurstöðurnar verði gagnlegar, bæði fyrir stefnumótendur og ráðningaraðila til að stuðla að auknu jafnvægi, gagnsæi og ábyrgð í ráðningum í æðstu stjórnendastöður.