Á ECMLG 2025 ráðstefnunni í París flutti Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands, erindi þar sem hún fjallaði um fjárfestingahegðun íslenskra kvenna í atvinnulífinu og þær hindranir sem standa í vegi fyrir virkri þátttöku þeirra á fjármálamörkuðum.
Erindið byggði á niðurstöðum könnunar meðal á fjórða hundrað kvenna í Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA/AWBL) og varpaði ljósi á að jafnvel konur með mikla menntun, ábyrgðarstöður og góðar tekjur, fjárfesta síður en ætla mætti. Í erindinu kom fram að félagsmótun, fjármálalæsi og fyrri reynsla hafa veruleg áhrif á sjálfstraust í fjárfestingum og að konur velja að mestu að fjárfesta í eignum með litla áhættu, á meðan áhættumeiri fjárfestingar eins og hlutabréf og sprotafyrirtæki eru síður nýttar.
Ásta Dís lagði áherslu á að varfærni í fjárfestingum væri áberandi þar sem fasteignir og sjóðir eru algengustu fjárfestingakostirnir, á meðan áhættumeiri leiðir eru síður notaðar.
Efla þyrfti fjármálalæsi frá unga aldri, því þær sem fengu fjármálafræðslu í æsku sýna meira sjálfstraust og telja færri hindranir í vegi.
Þá hafa tekjur og aðgengi að fjármagni eðlilega áhrif en lægri tekjur tengjast auknu óöryggi og meiri skynjuðum hindrunum.
Mikilvægt sé að fjölga fyrirmyndum og efla ráðgjöf á sviði fjárfestinga því að skortur á fyrirmyndum og gagnsærri ráðgjöf dregur úr þátttöku í fjárfestingum.
Erindið vakti mikinn áhuga meðal ráðstefnugesta og skapaði líflegar umræður um hvernig hægt sé að efla fjármálalegt sjálfstæði kvenna, bæta aðgengi að fjárfestingatækifærum og styrkja stuðningskerfi í fjármálageiranum. Þá var mikill áhugi á að heyra um hvenær væri best að byrja slíka fræðslu og hverjir væru best til þess fallnir að sjá um hana í skólakerfinu.
Rannsóknin og erindið eru hluti af starfi Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands, sem vinnur að því að auka skilning á stöðu kynjanna í fjármálum og atvinnulífi í samstarfi við Arion banka.