Þóra H. Christiansen, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, flutti í síðustu viku áhugavert erindi á European conference on management, leadership and governance í París, þar sem hún kynnti nýjar niðurstöður úr rannsóknum á ráðningarferli forstjóra á Íslandi.
Rannsóknin sýnir að mörg stærstu fyrirtækin auglýsa forstjórastöður ekki opinberlega, heldur treysta á lokuð tengslanet og ráðningaskrifstofur. Þessi framkvæmd, sem Þóra kallar „þöggun í ráðningarferlinu“ dregur úr aðgengi kvenna að æðstu stjórnunarstöðum, jafnvel þegar konur hafa mikla reynslu, þekkingu og menntun til að taka við slíkum hlutverkum.
Þóra lagði fram fræðilegt líkan sem sýnir hvernig samspil hefða, valdakerfa og munnlegs orðróms hefur þau áhrif að karlar eru oftar valdir, jafnvel áður en ferlið hefst formlega. Rannsóknin byggir á ítarlegum viðtölum við stjórnarfólk og ráðningarráðgjafa og var kynnt sem hluti af alþjóðlegri umræðu um jafnrétti í leiðtogastöðum.
„Við erum að sjá að ferlið er stundum lokað áður en það hefst,“ sagði Þóra í erindi sínu. „Þegar ákveðið er strax í byrjun að leita einhvers sem allir þekkja þá fjarlægjum við stóran hóp hæfra kvenna úr leik.“
Áhugaverðar umræður spunnust meðal þátttakenda og niðurstöðurnar vekja spurningar um gagnsæi, ábyrgð og samfélagslegar afleiðingar þess að halda áfram með hefðir sem útiloka fjölbreytileika í æðstu stjórnunarstöðum.