Leiðtogahæfni til framtíðar

Katrín Jakobsdóttir

Leiðtogahæfni til framtíðar

Masterclass á Heimsþingi kvenleiðtoga
Heimsþing kvenleiðtoga var formlega sett í Hörpu í dag. Í gær var sérstakur boðsviðburður þar sem Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, stjórnarmaður í Reykjavík Global Forum og formaður stjórnar Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi bauð upp á masterclass á Heimsþingi kvenleiðtoga, undir yfirskriftinni Leadership for Progress: What kind of leadership is needed to promote gender equality in politics, business and society?

Þar fjallaði Katrín um stöðu jafnréttismála á Íslandi og hvaða lærdóm megi draga af íslenskri reynslu þegar kemur að því að skapa raunveruleg tækifæri til jafnréttis í stjórnmálum, atvinnulífi og samfélaginu í heild. Hún lagði áherslu á að árangur Íslands byggi á samspili lagasetningar, menntunar, samfélagslegra viðhorfa og virkri þátttöku karla og kvenna í breytingaferlinu.

Katrín ræddi jafnframt þær áskoranir sem blasa við á heimsvísu, þar sem víða gætir bakslags í jafnréttismálum. Hún ræddi m.a. um hvaða leiðir væru árangursríkastar til að takast á við slíkt bakslag og hvatti til umræðu um hvernig við getum haldið jafnrétti á dagskrá þrátt fyrir breytt viðhorf og pólitískt andrúmsloft.

Í framhaldi spunnust líflegar umræður meðal þátttakenda um hvers konar leiðtogahæfni þyrfti til að takast á við þessar áskoranir og hvað þyrfti til að skapa jafnvægi milli festu og samkenndar. Leiðtogar þyrftu að sýna hugrekki en einnig getu til að tengja saman ólík sjónarmið og fólk.

Rannsóknasetur um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi leggur áherslu á að jafnrétti sé ekki aðeins málefni kvenna heldur samfélagsins alls. Jafnrétti kynjanna stuðlar að réttlæti, styrkir lýðræðið og leiðir til betri ákvarðana í stjórnmálum, atvinnulífi og efnahagsmálum og í því felst ávinningur fyrir alla.