Konur stjórna öllu hér á landi – eða hvað?

Ásta Dís Óladóttir, prófessor og verkefnastjóri Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands, hélt á dögunum áhugavert erindi fyrir Business Power Women í Reykjavík þar sem hún fjallaði um stöðu kynjajafnvægis í íslensku atvinnulífi og spyr hvort við séum raunverulega jafn langt komin og við viljum trúa.

Í erindinu, sem bar yfirskriftina „Konur stjórna öllu hér á landi“, dró Ásta Dís fram helstu staðreyndir um stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði, ásamt nýjum rannsóknum á stöðu kvenna í stjórnum, framkvæmdastjórnum og forstjórastöðum. Þrátt fyrir að Ísland leiði jafnréttismál á heimsvísu og hafi brúað rúmlega 92% kynjabilsins, er staðan í atvinnulífinu flóknari og kynjajafnvægi í efstu stjórnunarstöðum langt í frá náð.

„Við erum í fyrsta sæti í pólitískri þátttöku, en aðeins í 60. sæti þegar kemur að stjórnunarstöðum í atvinnulífinu,“ sagði Ásta Dís í erindinu. „Þetta sýnir að efnahagslegt jafnrétti er næsta stóra áskorunin bæði fyrir stjórnvöld, atvinnulífið og fjárfesta.“

Ásta Dís kynnti einnig niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið innan setursins og varpa ljósi á mismunandi sjónarmið stjórnarmanna, ráðningaráðgjafa og lífeyrissjóða um ástæður kynjahalla í efstu stöðum. Rannsóknirnar sýna m.a. að karlmenn hafa enn afgerandi yfirburði í ráðningarferlum og að tengslanet og samtrygging gegna þar lykilhlutverki.

Í umræðunni kom einnig fram að stjórnendur, ráðningaskrifstofur og fjárfestar hafi allir hlutverki að gegna við að breyta viðteknum vinnubrögðum og að aukin gagnsæi, markviss arftakaáætlun og jafnvægi í stjórnendateymum geti haft afgerandi áhrif.

„Jafnrétti í atvinnulífi snýst ekki um tilfinningar heldur staðreyndir,“ sagði Ásta Dís að lokum.
„Við þurfum að byggja ákvarðanir á gögnum, mælanlegum markmiðum og ábyrgð allra aðila ekki síst þeirra sem hafa vald til að breyta leikreglunum.“

Erindið vakti mikla umræðu meðal þátttakenda og var ætlað er að efla tengsl, fræðslu og umræðu meðal kvenna í atvinnulífinu um stöðu jafnréttis í efnahags- og atvinnulífi hér á landi.