Kristín Ingvarsdóttir dósent í japönskum fræðum við Háskóla Íslands segir það stóran áfanga fyrir Japan að fá fyrsta kvenforsætisráðherrann í sögu landsins, þó að hún sé ekki kyndilberi kvenréttinda. Sanae Takaichi var á dögunum kjörin forsætisráðherra Japans og er þar með fyrsta konan til að gegna því embætti í sögu landsins.
„Þetta er mikilvægt táknrænt skref,“ segir Kristín. „Að sjá konu í einni æðstu valdastöðu landsins hefur áhrif á sýn og væntingar, jafnvel þótt hún sé ekki sjálf baráttukona fyrir jafnrétti.“
Kristín bendir á að staða kvenna í Japan sé marglaga vandamál þar sem væntingar til kynjanna séu enn mjög ólíkar. „Kerfið er hannað út frá þeirri forsendu að konur dragi sig í hlé af vinnumarkaði þegar þær gifta sig eða eignast börn,“ útskýrir hún. „Skattkerfið styður við það að einn aðili sé heima – og það er oftar en ekki konan. Feðraorlof hefur ekki náð fótfestu og vinnumarkaðurinn er ekki fjölskylduvænn.“
 
								