Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og stjórnarformaður Rannsóknarseturs um jafnrétti í efnahags-og atvinnulífi, flutti erindi á fundi Stjórnvísi nú á föstudaginn.
Þar kynnti hún rannsóknasetrið og verkefni þess og ræddi mikilvægi þess að við nýtum þann góða árangur sem Ísland hefur náð í jafnréttismálum til að ná fullu jafnrétti í íslensku atvinnulífi. Hún ræddi mikilvægi jafnréttis fyrir góða stjórnarhætti en tilefni fundarins voru viðurkenningar Stjórnvísi fyrir góða stjórnarhætti sem veittar voru 17 íslenskum fyrirtækjum þetta árið. Þá ræddi hún stöðu jafnréttismála á alþjóðavettvangi en Ísland hefur lykilhlutverki að gegna við að halda þessum málaflokki hátt á lofti á þeim umbrotatímum sem heimurinn gengur nú í gegnum. Rannsóknasetrið er í góðu samstarfi á alþjóðavettvangi og liggja þar mikil tækifæri fyrir Ísland.