Í tilefni dagsins grípum við niður í nýja skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins sem birt var á dögunum.
Í nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (WEF) um kynjajafnrétti, Global Gender Gap Index 2025, heldur Ísland áfram fyrsta sæti á heimsvísu 16. árið í röð. Þrátt fyrir að skora hæst í heildareinkunn, gefa niðurstöðurnar tilefni til þess að hafa ákveðnar áhyggjur hvað varðar jafnrétti í efnahagslegri þátttöku og ákvarðanatöku, segir Ásta Dís Óladóttir prófessor við Háskóla Íslands.
Ísland er nú í 10. sæti í undirflokknum Economic Participation and Opportunity, en það er lækkun frá 7. sæti árið 2024. Sérstaka athygli vekur að Ísland er nú í 60. sæti í hlutfalli kvenna í hópi stjórnenda. Það er talsverð lækkun og bendir til þess að kynjahlutföll í æðstu valdastöðum atvinnulífsins séu langt frá því að vera í jafnvægi.
Þetta er í algjörri andstöðu við árangur Íslands í stjórnmálum, segir Ásta Dís, þar sem landið heldur 1. sæti í Political Empowerment og konur eru áberandi í opinbera geiranum.
Nánari greining sýnir einnig að Ísland er í 47. sæti hvað varðar áætlaðar tekjur kvenna, og í 60. sæti þegar kemur að hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum með einkunnina 0.582, sem dregur niður heildarskor landsins í efnahagslegri þátttöku.
Einnig má sjá að konur eru í miklum meirihluta meðal sérfræðinga og fagmenntaðs starfsfólks þar er Ísland í 1. sæti en sú menntun virðist ekki skila sér hlutfallslega í æðri stjórnunarstöður.
Þversögn sem kallar á aðgerðir!
Þessar niðurstöður varpa ljósi á þversögn: Ísland leiðir heiminn í jafnrétti samkvæmt samantektarskori, en þegar litið er undir yfirborðið kemur í ljós að kerfisbundin hindrun virðist standa í vegi fyrir því að konur nái jafnmikilli aðkomu að ákvörðunartöku í atvinnulífinu og karlar. Niðurstöðurnar renna stoðum undir nýlegar rannsóknir sem sýna að konur, jafnvel þær sem hafa menntun, reynslu og aðgang að upplýsingum mæta kerfislægum hindrunum við fjárfestingar og efnahagslega ákvarðanatöku.
Það sem þarf að skoða betur, bæði í fræðasamfélaginu og meðal stefnumótenda, er hvers vegna kerfið hleypir konum inn en ekki upp segir Ásta Dís að lokum.
Skýrsluna má nálgast hér
https://www.weforum.org/publications/global-gender-gap-report-2025/