Fyrirtæki með jöfn kynjahlutföll í stjórnum og framkvæmdastjórnum skila betri árangri

Ný samanburðarrannsókn Freyju Vilborgar Þórarinsdóttur, Ástu Dísar Óladóttur, Gary L. Darmstadt og Sigríðar Benediktsdóttur skoðar hvað er raunverulega á bak við „gender-lens“ eða kynjagleraugnasjóði, en síðustu ár hafa jafnréttismiðaðar fjárfestingar vaxið hvað hraðast meðal ábyrgra fjárfestinga og eru orðnar lykilþáttur, bæði samfélagslega og fjárhagslega.
Fjölmargar rannsóknir, þar á meðal frá McKinsey og MSCI, sýna að fyrirtæki með jöfn kynjahlutföll í stjórn og framkvæmdastjórn skila almennt betri ávöxtun og minni áhættu. Stærstu hluthafar heims, BlackRock, Vanguard og State Street, sem og þjóðarsjóðir Japans (GPIF) og Noregs (NBIM) og stærstu lífeyrissjóðir Bandaríkjanna (CalPERS, CalSTRS) hafa þegar tekið jafnrétti upp sem lykilviðmið í fjárfestingum sínum. Í Bandaríkjunum eru lífeyrissjóðir með samtals 37,8 billjónir USD í stýringu, þar af 26,3 billjónir í atvinnutengdum sjóðum.

Kynjagleraugu þýða ekki það sama alls staðar
Í rannsókninni eru bornir saman 14 hlutabréfasjóðir sem segjast fjárfesta með „kynjagleraugum“ þ.e. velja fyrirtæki út frá starfsháttum og stefnu í jafnréttismálum. Skoðaðir eru sjóðir í Norður-Ameríku, Evrópu og Japan, sem fara ólíkar leiðir. Sumir fylgja vísitölum (t.d. Equileap eða MSCI), aðrir byggja á eigin matsreglum. Niðurstaðan er skýr „kynjagleraugu“er ekki eitt og hið sama. Aðferðirnar eru misbreiðar og misgagnsæjar og leiða til mjög ólíkra eignasafna með litla skörun (fáar sameiginlegar eignir). Flestir sjóðir hreyfast líkt og markaðurinn í heild og virkir sjóðir skila yfirleitt ekki meiri ávöxtun en einfaldir vísitölusjóðir.

Hagnýting rannsóknarinnar
Rannsóknin leggur til einfalda matsramma fyrir fjárfesta og aðra notendur:

  • horfa ekki aðeins á merkinguna „kynjagleraugu“ heldur hvaða viðmið eru raunverulega notuð,
  • kanna aðhald og ábyrgð (t.d. hluthafastefnu, atkvæðagreiðslur, upplýsingagjöf),
  • tengja þetta við samsetningu eignasafns (geirar, stærð fyrirtækja, dreifing).Svona nálgun hjálpar fólki að velja sjóði sem passa markmiðunum, hvort sem markmiðið er árangur, áhrif, eða bæði. Hún styður líka við kröfur um skýrari og samræmdar upplýsingar frá sjóðum.


Hvert er fræðilega framlagið?

Rannsóknin brúar bilið milli hugmynda um jafnrétti í fjárfestingum og þess sem gerist í raun í sjóðum. Í henni er:

  • settur fram skýr flokkunarrammi (breidd jafnréttisviðmiða × dýpt ábyrgðar),
  • sýnd bein tengsl milli aðferðar, eignasafns og árangurs,
  • greining sem skýrir heildstætt hvers vegna sjóðir með svipaða framsetningu geta verið ólíkir að uppbyggingu.


Af hverju skiptir þetta máli núna?

Umræðan um jafnrétti og fjárfestingar er á tímamótum. Merkingar og loforð eru víða til staðar, en án gagnsæis er erfitt að sjá hvað raunverulega stendur að baki. Rannsókn eins og þessi hjálpar almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum að greina á milli markaðssetningar og efnis, styrkir traust og tryggir að fjármagn styðji þær aðgerðir sem færa okkur raunverulega nær jöfnuði. Þetta er mikilvægt nú þegar væntingar til samfélagsábyrgðar aukast en reglurnar eru misjafnar milli landa.