Ásta Dís Óladóttir, prófessor og verkefnastjóri Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands, hélt í morgun erindi á fundi Mannauðs – vettvangs fagfólks í mannauðsstjórnun sem bar yfirskriftina ,,Forstjórahringekjan“
Í erindinu fjallaði Ásta Dís um nýjustu rannsóknir á stöðu kvenna í æðstu stjórnunarstöðum, hlutverk ráðgjafa í forstjóraráðningum og mikilvægi gagnsæis í ráðningarferlum. Kynningin byggði meðal annars á rannsókn eftir Þóru H. Christiansen, Ástu Dís Óladóttur og Hrefnu Guðmundsdóttur, sem varpar ljósi á hvernig ráðningaráðgjafar og stjórnendur geta óafvitandi viðhaldið kynjahalla í æðstu stöðum fyrirtækja.
Rannsóknir þeirra sýna að forstjórastöður eru enn sjaldan auglýstar og að ferlið byggir oftar en ekki á óformlegum tengslanetum þar sem sami hópur karla snýst í „hringekju milli stóla“.
„Það þarf kerfislægar úrbætur og samstillt átak til að rjúfa vítahringinn, því hringekjan stöðvast ekki af sjálfu sér,“ sagði Ásta Dís og hvatti mannauðsstjóra til að leiða breytingar með því að tryggja gagnsæi, hvetja til þess að auglýsa æðstu stöður opinberlega og setja skýr hæfniviðmið sem endurspegla raunverulegar þarfir en ekki eingöngu fyrri titla eða tengslanet.
Ásta Dís ræddi jafnframt um hvernig mannauðsstjórar, ráðningaráðgjafar og stjórnir geti með markvissum aðgerðum stuðlað að jöfnum tækifærum og auknum fjölbreytileika. Hún lagði sérstaka áherslu á mikilvægi arftakaáætlana og ábyrgð stjórna á að tryggja jafnvægi kynja og breiðari hæfnisgrunn við val á æðstu stjórnendum.
Erindið vakti áhuga og leiddi til umræðna um þróun síðustu áratuga í ráðningum æðstu stjórnenda, þar sem oft var einfaldlega „hringt í félagana úr viðskiptafræðinni“ þegar forstjórastaða losnaði. Einnig var rætt hvernig konur sækja sjaldnar um stöður nema þær telji sig uppfylla öll skilyrði, á meðan karlar eru líklegri til að taka áhættuna og sækja um engu að síður. Þessar umræður undirstrikuðu mikilvægi þess að mannauðsstjórar og ráðningaraðilar séu meðvitaðir um slíkar undirliggjandi venjur og viðhorf, og stuðli markvisst að jöfnum tækifærum í ráðningum og arftakaáætlunum.