Ný rannsókn bendir til þess að rót kynjahalla í forstjórastöðum í íslensku atvinnulífi sé að finna í ráðningarferlinu sjálfu, sem oft er lokað, ógagnsætt og íhaldssamt.
Konur hafa lengi verið í miklum minnihluta meðal forstjóra á Íslandi, þrátt fyrir mikla menntun, starfsreynslu og jafnréttislöggjöf.
Ný rannsókn eftir Hrefnu Guðmundsdóttur, Þóru Christiansen og Ástu Dís Óladóttur bendir til þess að vandinn liggi oft í ráðningarferlinu sjálfu. Rannsóknin byggir á viðtölum við reynda ráðgjafa frá helstu ráðningarskrifstofum landsins sem hafa haft milligöngu um ráðningu fjölmargra forstjóra á Íslandi.
Ásta Dís Óladóttir, prófessor og stofnandi Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands, segir helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að stjórnendaleitarráðgjafar gegna lykilhlutverki í ráðningarferli forstjóra og hafa veruleg áhrif á það hverjir komast að í ferlinu og hverjir ekki. Það spili m.a. stórt hlutverk að forstjórastöður séu ekki auglýstar opinberlega.
„Leitaraðferðir byggjast oft á óformlegum tengslanetum og hefðbundnum viðmiðum sem viðhalda ríkjandi mynstri, þar sem karlar eru líklegri til að hljóta forstjórastöður og kynjajafnvægi er sjaldnast sett í forgang,“ segir Ásta Dís.
„Þó komu fram dæmi um ráðgjafa sem eru að reyna að breyta þessu mynstri og leggja áherslu á fjölbreytileika í framboði, en þeim mætir oft tregða frá stjórnum sem óska eftir „þekktum nöfnum“. Eins og einn viðmælandi orðaði það: sömu karlarnir snúast í hringekju milli stóla,“ segir hún enn fremur.