Fjárfestingar kvenna í íslensku atvinnulífi – Hvaða hindranir standa í vegi fyrir þátttöku kvenna á fjármálamarkaði?
Tímarit um Viðskipti og efnahagsmál.
Höfundar greinarinnar eru Ásta Dís Óladóttir, Þóra H. Christiansen, Haukur Freyr Gylfason, Gylfi Magnússon, Haukur C. Benediktsson og Freyja Vilborg Þórarinsdóttir.
í greininni eru birtar fyrstu niðurstöður mun stærri rannsóknar sem miðar að því að varpa ljósi á fjárfestingahegðun kvenna í íslensku atvinnulífi og áhrif hennar á efnahagslegt sjálfstæði þeirra.
Í rannsókninni var greint hvernig fjárfestingahegðun kvenna í íslensku atvinnulífi mótast af ýmsum þáttum, með sérstaka áherslu á þær hindranir sem þær mæta á fjármálamörkuðum. Rannsóknin byggir á könnun meðal 316 kvenna í Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA), þar sem flestar gegna stjórnunar- eða leiðtogastöðum og hafa víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Þó að þær konur hafi aðgang að menntun, tekjum og upplýsingum, koma í ljós hindranir sem jafnvel þetta háa menntunarstig getur ekki hjálpað til að yfirstíga.
Megin niðurstöður
Fjárhagsleg þekking og óöryggi: Konur sem fengu fjármálafræðslu í æsku reyndust marktækt öruggari við fjárfestingaákvarðanir en þær sem ekki fengu slíka fræðslu. Þetta sýnir mikilvægi þess að bæta fjármálafræðslu til að auka sjálfstraust kvenna.
Hindranir tengdar félagslegum þáttum: Skortur á fyrirmyndum og óöryggi varðandi fjárfestingarnar sjálfar komu fram sem stærstu hindranir fyrir margar konur, sérstaklega yngri og menntaðri konur sem eru að fóta sig á atvinnumarkaði.
Hindranir eftir tekjum: Konur með lægri tekjur upplifa oft skort á fjármagni sem hindrun við fjárfestingar, á meðan konur með hærri tekjur eru líklegri til að telja aðrar hindranir á borð við tímaskort eða skort á sérsniðinni þjónustu.
Fræðileg framlag og nýnæmi
Rannsóknin varpar ljósi á fjárfestingarhegðun kvenna í íslensku atvinnulífi með því að tengja saman kenningar um fjármálalæsi, áhættumat, félagsmótun og traust til fjármálastofnana. Rannsóknin er sú fyrsta á Íslandi sem skoðar fjárfestingahegðun kvenna í atvinnulífinu og tekur með í reikninginn sérstaka þætti sem hafa áhrif á fjárfestingaákvarðanir þeirra.
Hagnýtt framlag
í greininni leggja höfundar til stefnumótandi aðgerðir til að bæta aðgengi kvenna að fjárfestingartækifærum og draga úr kynjamun á fjármálamarkaði. Fjárfestar hafa mikil áhrif á ákvarðanatökur í viðskiptalífinu og því er mikilvægt að hrinda hindrunum úr vegi. Meðal annars er lagt til að fjármálafræðsla verði efld og sérsniðin fjárfestingaráðgjöf þróuð til að mæta þörfum kvenna.
Höfundar vilja þakka bakhjörlum og samstarfsaðilum sem eru þessir helstir: Arion banki
Creditinfo, Gallup, Landssamtök lífeyrissjóða, Nasdaq Iceland, Rannís og Rannsóknasjóður Háskóla Íslands.