Ásta Dís Óladóttir prófessor ræddi um stöðu jafnréttis, 15 árum eftir setningu kynjakvótalaga

Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, ræddi í hádegisfréttum Bylgjunnar 13. desember um helstu niðurstöður nýrrar fræðigreinar sem mun birtast þann 16. desember, á 20 ára afmæli Tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla. Greinin er eftir Ástu Dís, Þóru H. Christiansen, Viðar Lúðvíksson og Katrínu Jakobsdóttur, og varpar ljósi á stöðu jafnréttis í íslensku atvinnulífi 15 árum eftir setningu laga um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.

Í viðtalinu kom fram að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur hækkað verulega eftir að lögin tóku gildi og markaði það skýran ávinning lagasetningarinnar. Hins vegar benti Ásta Dís á að þessi þróun hefur ekki skilað sér í með nógu markvissum hætti í fjölgun kvenkyns forstjóra og framkvæmdastjóra  þar sem innan við 20% æðstu stjórnenda fyrirtækja eru konur.

Ásta Dís sagði einnig að almenningsálitið væri klofið í afstöðu til frekari kynjakvóta, þar sem karlar væru mun andvígari frekari aðgerðum. Þá mætti greina merki um svokallaða „jafnréttisþreytu“ í samfélaginu, þar sem sumir telja að nóg hafi verið gert hvað varðar jafnréttismál, á meðan aðrir telja nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða.

Greinin verður kynnt á opnum viðburði í Odda, stofu 101, 16. desember kl. 16:30, í tilefni af afmæli tímaritsins.