Ný ritrýnd fræðigrein varpar ljósi á hvernig konur í stjórnum skráðra félaga á Íslandi upplifa ráðningarferli forstjóra og hvernig mat á leiðtogahæfni kvenna fer fram.
Greinin ber heitið:
Exploring Women’s Leadership in CEO Appointments: A Qualitative Study of Board Member Perspectives in Iceland’s Listed Companies
Í greininni er byggt á viðtölum við 22 konur sem áttu sæti í stjórnum allra skráðra félaga í Kauphöll Íslands árið 2022. Markmiðið er að varpa ljósi á viðhorf, viðmið og verklag í ráðningarferli forstjóra og greina þá kerfislægu þætti sem stuðla að vanmati á hæfni kvenna til æðstu stjórnunarstarfa.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar:
- Konur eru oft metnar hæfari en karlkyns umsækjendur, en engu
að síður ráðnir karlar. - Hógvær framkoma kvenna virðist frekar vinna gegn þeim í
ráðningarferlinu, á meðan sjálfsörugg framsetning karla er talin
eftirsóknarverð. - Krafa um fyrri reynslu sem forstjóri virkar sem útilokunarviðmið
gagnvart konum. - Val og mat stjórnarmanna byggir að verulegu leyti á ríkjandi
kynbundnum staðalímyndum og persónulegum tengslaneti.
Greinin dregur fram mikilvæga mótsögn: Þrátt fyrir lagalegar og samfélagslegar framfarir á sviði jafnréttis, eru ákvörðunarferli við ráðningu forstjóra enn að verulegu leyti mótuð af hugmyndum um forystu sem tengjast karllægum viðmiðum og gildismati.
Höfundar leggja til:
- Að verklag og viðmið við ráðningar forstjóra verði endurskoðuð í ljósi nútímalegrar þekkingar á forystu og fjölbreytileika.
- Að stjórnarmenn fái fræðslu og þjálfun til að draga úr ómeðvitaðri skekkju í mati á hæfni.
- Að áhersla verði lögð á gagnsæi, fagmennsku og víðtækari skilgreiningu á leiðtogaeiginleikum.
Höfundar: Sigrún Gunnarsdóttir, Þóra H. Christiansen, Ásta Dís Óladóttir og Erla S. Kristjánsdóttir.
Það er von höfunda að rannsóknin verði innlegg í faglega og gagnrýna umræðu um kynjajafnrétti í æðstu stjórnunarstöðum og verði hvati til nauðsynlegra breytinga á stjórnarháttum í íslensku viðskiptalífi.