Kynjakvótalög 15 ára. Enn eru félög sem ekki fylgja lögunum

Ný grein um áhrif kynjakvótalaga, sem birtist í 20 ára afmælishefti tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla, sýnir að kynjakvótalögin hafa sannarlega haft áhrif, en að Ísland sé þó „langt frá því að vera fyrirmyndarríkið“ þegar horft er sérstaklega til hlutfalls kvenna í stjórnunarstöðum í atvinnulífinu.

Í umfjöllun á Vísi segir Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og einn höfunda greinarinnar, að konur séu enn innan við 20% stjórnenda á Íslandi og aðeins fjórar konur stýri félögum sem skráð eru í Kauphöll. Þá standist að minnsta kosti tvö skráð félög ekki kröfur kynjakvótalaganna um kynjahlutföll í stjórnum.

Rannsóknin bendir til þess að kynjakvótalögin hafi skilað árangri í stjórnum fyrirtækja sem þau ná yfir, en að smitáhrifin yfir í framkvæmdastjórnir og forstjórastöður hafi verið mun minni en vonast var eftir. Almenningur telur jafnréttisbaráttuna ganga of hægt, en er klofinn í afstöðu til frekari kvóta, sérstaklega á milli kynja, þar sem karlar eru almennt mun neikvæðari gagnvart frekari inngripum.

Lesa má nánar um niðurstöður rannsóknarinnar og viðtal við Ástu Dís á Vísi.