Á ráðstefnunni Þjóðarspegillinn, sem haldin var föstudaginn 31. október, kynnti Freyja Vilborg Þórarinsdóttir niðurstöður rannsóknar, á svonefndum kynjagleraugnasjóðum (e. Gender Lens Equity Funds), sem er hluti af doktorsverkefni hennar við Háskóla Íslands. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Ástu Dís Óladóttur, prófessor við Háskóla Íslands, Sigríði Benediktsdóttur, dósent við Columbia-háskóla og lektor við Háskóla Íslands, og Gary Darmstadt, prófessor við Stanford-háskóla.
Í rannsókninni var þróaður tvívíður matsrammi til að meta breidd og dýpt aðferðafræði 14 sjóða frá Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, sem gerir kleift að greina mismunandi nálganir þeirra við mat á jafnrétti í fjárfestingum, framkvæmd stefnu og eftirfylgni við jafnréttismarkmið með nýstárlegum og kerfisbundnum hætti.
Niðurstöður sýna mikla fjölbreytni í aðferðum og eignasamsetningu sjóðanna og að engin ein nálgun skilar stöðugt betri fjárhagslegum árangri. Hins vegar virðist aukið gagnsæi og fjölbreytt viðmið styrkja trúverðugleika sjóðanna, þó það leiði ekki endilega til hærri ávöxtunar. Þá kom fram að aðeins fáir sjóðir birta gögn um raunveruleg áhrif eða eftirfylgni við jafnréttismarkmið sín.
Freyja lagði áherslu á að niðurstöðurnar undirstriki mikilvægi gagnsæis í mati á kynjajafnrétti á fjármálamörkuðum, og að þörf sé á frekari rannsóknum á langtímaáhrifum og árangri kynjagleraugnasjóða.