Mánudaginn 11. ágúst áttu fulltrúar Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi góðan fund með Keiko Zaima, prófessor og rektor Kyoto Sangyo háskóla og tveimur samstarfsmönnum hennar. Japönsku gestirnir heimsóttu Háskóla Íslands með það að markmiði að kynna sér jafnréttismál á Íslandi, sér í lagi við Háskóla Íslands, en háskólarnir hafa átt samstarf um nemendaskipti í nokkur ár.
Kyoto Sangyo háskóli hefur u.þ.b. 15.000 nemendur og leggur sérstaka áherslu á hug- og félagsvísindi. Zaima rektor er í hópi örfárra kvenna sem gegna rektorsstöðu í Japan og henni er mikið í mun að Kyoto Sangyo láti gott af sér leiða í jafnréttismálum og var mögulegt samstarf á því sviði rætt á fundinum.
Í för með rektornum voru Dr. Misuzu Kurokowa-Seo frá Kyoto Sangyo og Dr. Takao Terano frá Chiba University of Commerce. Fulltrúar rannsóknarseturs voru Ásta Dís Óladóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kristín Ingvarsdóttir og Þóra H. Christiansen.
Nánar um Kyoto Sangyo háskóla, https://www.kyoto-su.ac.jp/index-e.html